Líkamsmynd og fjölbreyttar fyrirmyndir

mynd+

Slæm líkamsmynd er nokkuð algeng meðal ungs fólks, sérstaklega kvenna. Rannsóknir sýna að þær fyrirmyndir sem börn og unglingar hafa t.d úr teiknimyndum, tónlistarmyndböndum og Instagram geta haft mikil áhrif á þróun líkamsmyndar og líðan.

Árið 1998 var gerð allsherjargreining á 222 rannsóknum á kynjamun á útliti og líkamsmynd. Niðurstöður voru  þær að mikil aukning hafði orðið á tíðni slæmrar líkamsmyndar hjá konum á 50 árum. Líkamsmynd karla var almennt betri en líkamsmynd kvenna þótt tíðni slæmrar líkamsmyndar hafði einnig aukist hjá þeim. Önnur rannsókn sem framkvæmd var frá 1972 til 1997 sýndi að óánægja með útlit jókst yfir þetta tímabil, úr 23% upp í 56% hjá konum en úr 15% í 43% hjá karlmönnum.

Rekja má slæma líkamsmynd ungs fólks að miklu leyti til þeirrar óhóflegu áherslu sem lögð er á grannan og/eða stæltan líkamsvöxt, hve ólíkt það útlit er raunverulegu útlit fólks og þeirra ókosta sem oft eru tengdir við feitari líkama. Þar sem fáir uppfylla skilyrðin um hinn eftirsóknarverða vöxt þá má segja að meiri hluti fólks beri sig saman við útlit sem fæstir geta nokkurn tímann öðlast.

Það er sterk tilhneiging hjá fólki að bera sig saman við aðra. Því nær sem við teljum okkar eigið útlit vera því útliti sem talið er aðlaðandi, því ánægðari erum við með okkur. Líkamsmynd veltur því að miklu leyti á þeirri ímynd sem er af aðlaðandi útliti í okkar samfélagi og hvernig við skynjum líkama okkar út frá ímyndinni. Til að mynda hefur það neikvæð áhrif á líkamsmynd og eykur vanlíðan að bera sig saman við aðra sem samkvæmt gildum samfélagsins líta betur út heldur en við sjálf.

Kringum árið 1950 var talið mjög aðlaðandi að vera með mjúkar línur og uppfylltu þá fleiri konur skilyrðin um hinn eftirsóknarverða líkama.  Gerð var rannsókn frá árið 1980 á þeim breytingum  sem höfðu orðið á fegurðarviðmiðum kvenna yfir 20 ára tímabil, frá 1959 til 1978, en þar kom fram að á meðan fyrirsætur og keppendur í fegurðarsamkeppninni Ungfrú Ameríka  höfðu grennst töluvert yfir tímabilið hafði líkamsþyngd bandarískra kvenna aukist á sama tíma.

Skilaboð fjölmiðla um hvaða vaxtarlag er talið fallegast ná ekki einungis til fullorðinna heldur einnig til  barna og unglinga. Sem dæmi þá koma leikfangaauglýsingar og barnasjónvarpsefni skilaboðum um útlit áleiðis til barna. Útlit leikfanga og sögupersóna í barnaefni getur haft áhrif á mótun líkamsmyndar þar sem börn og unglingar bera sig saman við þær persónur. Útlit þessara persóna er ólíkt útliti flestra, til að mynda eiga mörg börn Barbie dúkku en telja má nær ómögulegt fyrir börn að líta út líkt og Barbie dúkka. Svipað má segja um bardagamennina sem börn jafnan leika sér með og áhrif þeirra á líkamsmynd. Undanfarna ártugi hefur útlit ýmissa leikfanga breyst og orðið mun óraunhæfari; Barbie hefur grennst, G.I Joe er mun vöðvameiri en hann var áður og Pony hestarnir frægu hafa greinilega verið sendir í megrun.

Ímynd hins fullkomna líkama hefur því á undanförnum áratugum breyst frá því að vera í mýkra laginu, yfir í það að vera grannur og stæltur og uppfylla því enn færri skilyrðin um hinn eftirsóknarverða vöxt. Með þessari breytingu á því sem talið er fallegt hefur bilið milli raunverulegs vaxtarlags fólks og því vaxtarlagi sem talið er eftirsóknarverðast aukist til muna.

Ólíkt hugmyndum margra þá eru endalausu skilaboðin um hinn fullkomna granna og stælta líkama ekki hvati til heilbrigðari lífshátta. Skilaboðin geta ýtt undir þróun slæmrar líkamsmyndar sem hefur áhrif á heilsu og lífsvenjur. Þessi slæma líkamsmynd getur til að mynda haft þau áhrif að við hugsum verr um líkama okkar og grípum til óheilbrigðra megrunaraðgerða sem hafa slæm áhrif á heilsu og líðan, bæði til lengri og skemri tíma. Einnig getur slæm líkamsmynd ýtt undir kvíða, þunglyndi og leitt til annarra geðrænna vanda.

Með aukinni fjölbreytni í útliti t.d með tilkomu plus size fyrirsæta og meiri fjölbreytileika í útliti áberandi einstaklinga eykst viðurkenning ólíkra líkama og félagslegur samanburður breytist. Einstaklingar sem ekki uppfylla skilyrðin um hinn eftirsóknaverða vöxt eru því líklegri til að sjá fólk sem líkist þeim í fjölmiðlum. Fjölbreyttari fyrirmyndir minnka ósamræmið milli raunverulegs vaxtalag fólks og þess útlits sem það sér daglega sem getur haft jákvæð áhrif á líðan og heilsu. Mikilvægt er að skoða betur áhrif fjölbreyttari fyrirmynda á líðan fólks og hvetja fyrirtæki og fjölmiðla til að bæta við í flóru fyrirmyndanna.

Næstkomandi þriðjudag, þann 13. mars fögnum við Degi líkamsvirðingar. Í tilefni af deginum verður boðið upp á ókeypis fræðslu á Cafe Meskí kl. 20:00  um líkamsmynd og fjölbreyttar fyrirmyndir.

Verið öll velkomin!

Elva Björk Ágústsdóttir

Sálfræðikennari og varaformaður Samtaka um líkamsvirðingu

Heimildir:

 

Erna Matthíasdóttir. (2009). Sátt Íslendinga á aldrinum 18-79 ára við eigin líkamsþyngd. Meistaraverkefni: Háskólinn í Reykjavík, Kennslu og lýðheilsudeild.

Garner, D. M. (1997). The 1997 body image survey results. Psychology today, 30, 30-84.

Smolak, L. (2002). Body image development in children. Í T. F. Cash og T. Pruzinsky (Ritstj.), Body Image: A handbook of theory, research and clinical practice (bls. 65-73). New York: Guilford Press

Stice, E., Rohde, P., Gau, J. og Shaw, H. (2009). An effectiveness trial of a dissonance-based eating disorder prevention program for high-risk adolescent girls. Journal of consulting and clinical psychology, 77, 825- 834

Stice, E., Chase, A., Stormer, S., og Appel, A. (2001). A randomized trial of a dissonance-based eating disorder prevention program. International Journal of Eating Disorders, 29, 247-262.

Tiggermann, M. (2004). Body image across the adult life span: stability and change. Body Image. 1, 29-41.

Thompson, J. K., Heinberg, L. J., Altabe, M. og Tantleff-Dunn, S. (1999). Exacting beauty: Theory, assessment and treatment of body image disturbance. Washington, DC: American Psychological Association.

Van den Berg, P. og Thompson, J. K. (2007). Self-schema and social comparison explanations of body dissatisfaction: A laboratory investigation. Body Image, 4, 29-38

Fræðsla um líkamsmynd og fjölbreyttar fyrirmyndir

Verið öll velkomin!

Fræðslukvöld um líkamsmynd og fjölbreyttar fyrirmyndirmynd+

Í tilefni af Degi líkamsvirðingar þann 13. mars munu Samtök um líkamsvirðingu bjóða upp á ókeypis fræðslukvöld um líkamsmynd og fjölbreyttar fyrirmyndir.
Farið verður í hvað líkamsmynd er, hvernig hún mótast og áhrif samfélagsmiðla og annarra fjölmiðla á þróun líkamsmyndarinnar. Skoðað verður sérstaklega áhrif fjölbreyttari fyrirmynda eins og plus size fyrirsæta. Einnig verður farið í hagnýtar aðferðir til að bæta líkamsmyndina
Fræðslan er opin öllum!

 

bdc952f4b7f8641d88563cda56e9a03f--body-positive-art-fat-positive

Jólakílóa- og janúarhreinsunarpirringur

jólanammi

Ég sat lengi fyrir framan tölvuna, starði á skjáinn og velti því fyrir mér hvernig ég ætti að hefja þennan pistil. Ég vissi að hann myndi birtast í janúar og vildi þess vegna skrifa eitthvað um þær auglýsingar og þann áróður sem svo oft birtist þá. Þar má til dæmis nefna detox, sykurlaus mánuður, hreinsun og þar fram eftir götunum, allt með sama markmiði að losa okkur við jóla-„auka“-kílóin.

Mig langaði að leggja áherslu á fræðin, skrifa um ástæður þess að það sé óheilsusamlegt að borða of mikið um jólin og svelta sig svo í janúar. Ég byrjaði að googla en drukknaði í efni um ástæður þess að sá vítahringur sé ekki sniðugur og vissi því ekkert hvar ég ætti að byrja.

Mig langaði einnig að leggja áherslu á raunverulegar auglýsingar, sem dynja á okkur í janúar og rétt fyrir jól, um mikilvægi þess að passa að fitna ekki um jólin. Ég endurtók fyrri leit og það sama gerðist. Ég drukknaði í efni og vissi ekkert hvar ég ætti að byrja.

Og ég varð pirruð, bara ofboðslega pirruð.

Ég var því ennþá frekar týnd, hvernig átti ég eiginlega að hefja þennan pistil? Ég velti fyrir mér að sniðugt væri að nota allar mögulegar upphafssetningar sem mér hafði dottið í hug:

„Ég man þá ótalmörgu daga þar sem ég grét mig í svefn yfir viðbættum kílóum jólanna og brotnum megrunaráramótaheitum…“

„Detoxkúr, sítrónudetox, hreinsun, hreinsunarvika, fitufrysting, sykurlaus janúar…“

„Áramótaheit – að losna við jóla-„auka“-kílóin …“

„Í kjólinn fyrir jólin!!!…“

„Ekki fitna um jólin KONA!!…“

Ég komst aldrei lengra með pistilinn. Ég varð alltaf svo pirruð. Ég varð reið yfir því hvað megrunarkúrarnir, átökin og „lífstílsbreytingarnar“ voru oft stílaðar eingöngu á konur. Facebook minnti mig til dæmis á það um daginn að árin 2013 og 2014 hneykslaðist ég á auglýsingu þar sem boðið var upp á námskeið til grenningar rétt fyrir jólin. Námskeiðinu, sem auglýst var, var sérstaklega beint að konum. Í nóvember 2015 kom fram á heimasíðu fyrirtækisins sem auglýsti námskeiðið að boðið væri upp á desemberáskorun (ekki tekið fram að það væri eingöngu fyrir konur) en í lýsingunni á námskeiðinu stóð: „5 vikna námskeið fyrir þær sem vilja vera fullar af orku og í fínu formi í desember. Komdu þér í flott form fyrir jólin og njóttu þess að borða góðan mat án þess að sitja uppi með aukakíló og vanlíðan.“ Þannig að þriðja árið í röð varð ég enn og aftur að fá að hneykslast rækilega.
Ég varð einnig pirruð yfir þeim hræðsluáróðri að jólin séu tími tuga aukakílóa. Að við munum öll, ef við pössum okkur ekki, borða á okkur gat og þurfum því að eyða öllum janúar í svelti til að losna við kílóin.

Ég varð pirruð á sjálfri mér, fyrir að sitja fyrir framan tölvuna með kaffibollann minn og Nóa konfekt í morgunmat. Höfðu þá markaðsöflin ekki einmitt rétt fyrir sér?

Jú, við borðum mörg hver meira um jólin en á öðrum tímum árs. Jú, mörg okkar fá sér súkkulaði í morgunmat og piparkökur í hádegismat. Mörg okkar kaupa Cocoa Puffs eingöngu yfir hátíðarnar og jú sum okkar bæta á sig einhverjum kílóum. En er þetta svo hræðilegt? Telja má líklegt að einhver kílóaaukning stafi af aukinni vökvasöfnun vegna reykts hátíðarmats en ekki vegna óhemju aukningar á fitu og eðlilega þá borða flestir ekki Nóa konfekt í morgunmat alla daga ársins. Hér er því ekki um langvarandi hættulegt „ofáts“-ástand að ræða.

Það sem stakk mig mest var að átta mig á, þegar ég googlaði efni fyrir þennan pistil, að ég hef nokkrum sinnum áður hrist hausinn yfir þessu öllu saman og skrifað pistla um það. Ég ákvað því að sleppa því í þetta sinn að skrifa pistil um „hin árlegu jólaaukakíló“ sem okkur er kennt að forðast og hræðast eða um hið algenga áramótaheit sem tengist kílóamissi og í stað þess bara að óska ykkur gleðilegs nýs árs með von um að árið 2016 verði ykkur gleðilegt og heilsusamlegt þar sem áhersla á útlit og kíló víki fyrir áherslu á ánægju, heilbrigði og líkamsvirðingu.

Höfundur: Elva Björk Ágústsdóttir, sálfræðikennari og varaformaður Samtaka um líkamsvirðingu

Pistillinn birtist fyrst á Stundin.is:

https://stundin.is/pistill/jolakiloa-og-januarhreinsunar-pirringur/

 

Hvers vegna er The Biggest Loser umdeilt sjónvarpsefni?

yelling_at_fat_lyr_copy

Nýlega hófst aftur sýning á þáttum The Biggest Loser. Þættirnir hafa sætt töluverðri gagnrýni, þannig að þegar fyrsta íslenska þáttaröðin var auglýst með þeim orðum að þættirnir væru „vottaðir af sálfræðingum, næringarfræðingum og læknum“ gaf fjöldinn allur af félagasamtökum fagfólks hér á landi út yfirlýsingu, þar sem skýrt var tekið fram að þættirnir væru hvorki vottaðir né samþykktir af íslensku fagfólki. Fleiri gagnrýnisraddir heyrðust einnig, svo sem frá Röggu Nagla og Dóra DNA.

Eftirfarandi pistill eftir Gabríelu Bryndísi Ernudóttur birtist á Líkamsvirðingarbloggi Eyjunni árið 2015. Sjá hér: http://blog.pressan.is/likamsvirding/2015/01/18/hvers-vegna-er-the-biggest-loser-umdeilt-sjonvarpsefni/

Ljóst er að The Biggest Loser er umdeilt sjónvarpsefni og er þessi pistill skrifaður til að varpa ljósi á hvers vegna svo er. Áhrifamáttur þáttanna og tilgátur um að þeir ýti undir fitufordóma hafa jafnvel orðið að fræðilegu rannsóknarefni. Því er mikilvægt að fólk skilji um hvað ádeilan snýst áður en það ákveður að setjast gagnrýnislaust fyrir framan sjónvarpið. Markmiðið er ekki að gagnrýna keppendur og mikilvægt að umræðan verði ekki misskilin með þeim hætti.

Í The Biggest Loser er fylgst með hópi feitra einstaklinga keppa í þyngdartapi. Sá vinnur sem hefur misst mestan hluta af þyngd sinni í lokin. Gagnrýni á þættina hefur því einna helst beinst að þeim óhóflegu áherslum sem lagðar eru á mikið þyngdartap á stuttum tíma, sem er talsvert fjarri ráðleggingum fagfólks um hálft til eitt kíló á viku sem viðmið um heilbrigt þyngdartap. Sömuleiðis hefur gagnrýnin beinst að því að sérstök áhersla virðist lögð á að sýna feitt fólk í niðurlægjandi ljósi, svo sem að þola öskur og skammir af hendi þjálfara eða vera stillt upp hálfnöktu við vigtun fyrir framan alþjóð. Bent hefur verið á að kvenkynsþátttakendur þurfa að vera í íþróttatopp á meðan þær eru feitar en fá svo að vera í hlýrabol eftir að þær hafa grennst. Hvað er það?

article-0-1B34D16F00000578-233_638x483

Við skulum líta nánar á það í hverju gagnrýnin á þættina felst og hvað niðurstöður erlendra rannsókna á þáttunum hafa leitt í ljós.

Öfgafull megrun

Margar rannsóknir hafa sýnt að mikið þyngdartap á stuttum tíma, eins og er greinilega markmiðið í þáttunum, hefur yfirleitt slæmar heilsufarslegar afleiðingar í för með sér. Óháðir og hlutlausir læknar og næringarfræðingar hafa lýst yfir áhyggjum sínum af mikilli fæðuskerðingu og allt að átta klukkutímum af brennsluæfingum á dag í erlendu útgáfu þáttanna. Þeir sem vinna með átraskanir eða hafa reynslu af átröskun hafa tjáð áhyggjur sínar af þeim öfgakenndu skilaboðum sem þættirnir senda um mataræði, hreyfingu og samband heilsu og holdafars. Þá hefur verið bent á þann möguleika að keppendur þáttanna gætu sumir átt við vanda að stríða sem verður ekki lagaður með öfgafullri megrun. Þátttakendur í bandarísku útgáfunni hafa líka komið opinberlega fram og tjáð sig um þau slæmu áhrif sem þátttaka þeirra hafði á heilsu þeirra. Ein þeirra sagði frá því að hún hefði þrófað með sér átröskun í þáttunumásamt því að afhjúpa ómanneskjulega meðferð á keppendum. Einnig hefur verið sagt frá hættulegum megrunaraðferðum, svo sem svelti og ofþornun, til að auka líkur á sigri. Gengið er svo hart að fólki að fólk hefur lent á spítala þegar líkaminn er kominn í þrot. Aðeins örfáir keppendur hafa þorað að tala við fjölmiðla um neikvæða upplifun sína því þeir eiga á hættu að fá himinháar fjársektir fyrir að tjá sig án leyfis framleiðanda.

Rachel-Frederickson-300x300

 

Þó margir virðast hafa gleypt gagnrýnislaust við áherslum The Biggest Loser í áranna rás þá virtist fólk vakna til vitundar þegar vinningshafi einnar þáttaraðarinnar þótti líta út fyrir að vera hættulega grannur.Internetið logaði og allt í einu fór fólk að efast um heilsusamlegt gildi þáttanna. Ég spyr sjálfa mig hvers vegna þetta komi fólki svona svakalega mikið á óvart. Umræddur keppandi braut engar reglur og gerði bara nákvæmlega það sem ætlast var til af henni. Það hlaut að vera einungis tímaspursmál að einhver keppandi myndi komast í undirþyngd. Einnig finnst mér það lýsandi fyrir mótsögnina í samfélagi okkar að fólk sé tilbúið að horfa á skemmtiþátt þar sem fólk er niðurlægt og líkömum þeirra er misþyrmt, en um leið og einhver lítur út fyrir að hafa mögulega veikst af átröskun, þá allt í einu eru þessar áherslur ekki í lagi. Þessar sömu áherslur hafa ríkt í þáttunum í meira en áratug og þetta er ekki í fyrsta sinn sem þátturinn er tengdur við þróun átröskunar án þess að það hafi haft teljandi áhrif á áhorfið. En þetta var í fyrsta skipti sem þessi áhrif urðu áberandi sýnileg og þá loks kviknar á perunni.

Niðrandi framkoma

Rannsókn á viðhorfum feitra gagnvart The Biggest Loser sýndi að meirihluti aðspurðra hafði neikvætt álit á þættinum. Meðal þess sem fólki fannst vafasamt var að þátturinn notar þyngd fólks í skemmtanatilgangi og að fólki sé stillt upp eins og viðundrum í sirkusi („a side show at some kind of circus“). Fólki fannst þátturinn móðgandi og niðurlægjandi. Meira að segja nafnið á þættinum mætti skilja þannig að þátttakendur séu aumingjar. Margir höfðu áhyggjur af þeirri opinberu niðurlægingu sem felst í því að vera vigtaður á undirfötunum fyrir framan alþjóð og töldu það geta haft langvarandi tilfinningaleg áhrif á keppendur.

Ófagleg og niðurlægjandi framkoma þjálfaranna hefur einnig farið fyrir brjóstið á mörgum og dæmi hver fyrir sig:

https://youtu.be/nEBtneXOirI

Fitufordómar

Áhyggjur fagfólks um þessa þætti beinast þó ekki eingöngu að velferð keppenda og þeim bjöguðu skilaboðum sem send eru út í samfélagið um heilbrigt líferni. Rannsóknir sýna að fitufordómar aukast þegar fólk horfir á sjónvarpsefni sem sýnir neikvæðar staðalímyndir af feitu fólki. Í þáttunum er ítrekað ýtt undir þá hugmynd að feitt fólk stundi reglulegt ofát, borði bara óhollt, séu algjör sófadýr og að lausn allra þeirra vandamála sé að grennast hratt. Ein rannsókn sýndi að fólk sem horfir á aðeins einn þátt af The Biggest Loser finnur fyrir auknu neikvæðu viðhorfi gagnvart feitu fólki og aukinni trú á að þyngd sé fullkomlega undir stjórn einstaklingsins eftir áhorfið. Rannsóknir sýna líka að því meira sem fólk trúir því að þyngd fólks sé alfarið hægt að stjórna með eigin hegðun, svo sem með mataræði og hreyfingu, því meiri fitufordóma sýnir það. Að líta svo á að feitt fólk geti sjálfu sér um kennt um holdafar sitt réttlætir fordóma og misrétti í þeirra garð.

Áhrif og viðbrögð í samfélaginu

Miðað við vinsældir þáttanna bæði hérlendis og erlendis má búast við því að þeir hafi umtalsverð áhrif í samfélaginu. Heyrst hefur til dæmis að íslenskir vinnustaðir hafi notað þættina sem fyrirmynd að megrunarkeppnum innan fyrirtækja, þar sem vegleg verðlaun eru veitt fyrir mesta þyngdartapið. Verður að teljast líklegt að slíkar áherslur geti stuðlað að óheilbrigðu andrúmslofti, megrunarþrýstingi og jafnvel ýtt undir fitufordóma á vinnustað. Nú þegar liggja fyrir rannsóknir sem sýna að konum er mismunað eftir holdafari í íslensku atvinnulífi svo það er varla á það bætandi.

Fljótlega eftir að birtingar hófust á síðustu þáttaröð af The Biggest Loser á Íslandi birtist frásögn stúlku á facebook um atburð sem hún hafði orðið vitni að í matvöruverslun. Kona í búðinni sýndi nokkuð brjálæðislega hegðun vegna þess að henni fannst önnur feit kona ekki sinna heilsufarslegum skyldum sínum gagnvart samfélaginu nógu vel, skammaði hana fyrir að vera með óhollan mat í innkaupakörfunni sinni, skipti kexpakka í körfunni út fyrir salat, og endaði á því að segja henni að fara heim og horfa á The Biggest Loser.

Mikilvægt er að fólk skilji að fitufordómar eru ekki bara spurning um dónaskap eða særandi atburði sem síðan gleymast. Það að lifa við fordóma hefur alvarleg áhrif á andlega og líkamlega heilsu fólks, félagslega stöðu og öll lífsgæði. Fitufordómar skerða atvinnumöguleika, stuðla að launamisrétti, hafa neikvæð áhrif á heilsutengd lífsgæði, draga úr áhuga á hreyfingu og auka líkur á átvandamálum, lágu sjálfsmati, slæmri líkamsmynd, þunglyndi og sjálfsvígshugsunum. Ekki ætti að gera lítið úr alvarleika þess að þættir sem fá jafn mikið áhorf og The Biggest Loser skuli reynast ýta undir fitufordóma samkvæmt rannsóknum og sérstaklega ætti það að vera varhugavert í litlu samfélagi eins og okkar.

Hvort þættirnir séu komnir til að vera hér á landi og hvort þeir eigi eftir að auka fordóma og holdafarsmisrétti hérlendis á eftir að koma í ljós. Ég legg engu að síður áherslu á mikilvægi þess að siðferðislega þenkjandi almenningur kynni sér þá gagnrýni sem komið hefur fram á þessa þætti úr margvíslegum áttum og velti alvarlega fyrir sér hvort þeir vilji leggja þessum skilaboðum lið með því að halda uppi áhorfi á þættina. Sjónvarpsefni hefur áhrif á áhorfendur, bæði börn og fullorðna, og ef um vinsælt sjónvarpsefni er að ræða ná áhrifin langt út fyrir áhorfendahópinn. Biggest Loser vinnustaðarkeppnir eru aðeins eitt dæmi um hvernig þessir þættir geta orðið að risavöxnum samfélagslegum áhrifavaldi. Þegar um er síðan að ræða efni sem þykir ýta undir samfélagslegt misrétti og óheilbrigða þráhyggju samfélagsins varðandi megrun og holdafar er full ástæða til að staldra við.
Höfundur: Gabríela Bryndís Ernudóttir

Höfundur er sálfræðingur

Heimildir:

http://onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1038/oby.2011.378/abstract

https://bedaonline.com/wsaw2013/weight-stigma-research-janet-latner-phd/#.VLpeVCusXPo

 

 

Heiðarlegt samtal?

Þann 18. september hélt Félag fagfólks um offitu (FFO) ráðstefnuna “Heilsan á vogarskálarnar – heiðarlegt samtal um offitu!” í Salnum í Kópavogi. Ráðstefnan var stíluð inn á heilbrigðisstarfsfólk og öllum þeim sem hafa áhuga á heilbrigðum lífsstíl. Samtök um líkamsvirðingu eru því svo sannarlega sammála að hér á landi þurfi að fara fram heiðarlegt samtal um offitu og til þess þurfi öll sjónarhorn að heyrast til að árangri sé náð, eins og formaður FFO sagði í setningarræðu sinni. Það voru því mikil vonbrigði að það sem fram fór var afskaplega óheiðarlegt samtal um offitu.

 

Til að byrja með er það afstaða FFO að offita sé sjúkdómur og því þurfi að bregðast við henni sem slíkum.  Þessi sjúkdómavæðing á holdafari hefur valdið deilum meðal heilbrigðisstarfsmanna víða um heim og er langt frá því að það sé einhugur um þennan stimpil.  Það má segja að sjúkdómsstimpillinn hafi fest sig í sessi eftir atkvæðagreiðslu félagsmanna American Medical Association (AMA) þar sem atkvæði féllu með að skilgreina offitu sem sjúkdóm. Svo virðist sem helsti drifkrafturinn á bak við þá ákvörðun hafi verið eiginhagsmunir atkvæðabærra, sem allir voru heilbrigðisstarfsmenn. Með þessari atkvæðagreiðslu var þrýst á tryggingarfélög og stjórnvöld að greiða fyrir endurgreiðslu vegna inngripa á grundvelli holdafars. Í raun var það svo að fagnefnd á vegum AMA sem var falið að meta rökstuðning með og á móti því að skilgreina offitu sem sjúkdóm komst að þeirri niðurstöðu að frekari rök væru á móti og að ekki bæri að skilgreina offitu sem sjúkdóm. Mótrök voru m.a. að þrátt fyrir áratugalangar rannsóknir væri lítið um orsakasamband milli offitu og slæmrar heilsu, offita hefði stundum verndandi áhrif á heilsu og að mælitæki sem notuð væru til að greina yfirþyngd og offitu væru gölluð. (1,2) 

 

Holdafar er áhættuþáttur, því verður ekki neitað. Fylgni er hinsvegar ekki það sama og orsakasamband eins og Samtök um líkamsvirðingu hafa margoft bent á. Í raun var það rauður þráður málflytjenda á ráðstefnunni að færa þurfi fókus frá holdafari yfir á lífsvenjur þar sem þær hefðu mun meiri áhrif á heilsufar en holdafar. Það rímar við málflutning Samtaka um líkamsvirðingu sem hafa lengi talað fyrir þyngdarhlutlausri nálgun að heilsufari (3). Fram kemur í skýrslu nefndar á vegum Embættis Landlæknis sem sett var á fótinn til að setja fram aðgerðaráætlun til að sporna við þróun offitu að; „Heilsusamlegir lifnaðarhættir hafa fjölþætt gildi fyrir heilsu og líðan, óháð holdafari.“(4) Þvert á þessi orð rembist FFO við að halda fókusnum á offitu og á offitu sem sjúkdóm sem þurfi að meðhöndla sem slíkan, þrátt fyrir að samtökin segi á sama tíma að feitt fólk geti vel verið heilsuhraust og að grannt holdafar sé ekki trygging fyrir góðri heilsu. Mótsagnirnar eru æpandi.

 

Á ráðstefnunni var ekkert fjallað um hvernig fitufordómar og aðrir félagslegir þættir hafa áhrif á  heilsu þrátt fyrir að þessir þættir vegi þungt í líkamlegu og andlegu heilsufari feitra.(5) Einungis var rætt um fitufordóma innan heilbrigðiskerfisins í því samhengi að heilbrigðisstarfsfólk þurfi að geta treyst því að það geti opnað samtal um offitu án þess að vera sakað um fordóma. Var þetta í raun inntak ráðstefnunnar eins og heyra mátti á máli formanns FFO í fréttatíma Stöðvar 2. Fitufordómar innan heilbrigðiskerfisins er mikið rannsakað og títt vandamál sem skerðir aðgengi feits fólks að mannúðlegri heilbrigðisþjónustu. Það er alveg ljóst að FFO er ekki umhugað um þetta vandamál ef talsmenn þess kjósa að velta ábyrgðinni á þolendur í staðinn fyrir að uppræta rót vandans. Okkur blöskrar sú þolendaskömmun sem er í gangi hér og mótmælum henni harðlega, ekki síst í ljósi þess heilbrigðisstarfsfólk er ekki í viðkvæmri stöðu líkt og þeir sem til þess leita. Það er innbyggt valdaójafnvægi í því að vera þjónustuþegi og þjónustuveitandi og þjónustan á alltaf að vera á forsendum þess sem þiggur hana. Að leggja jafna ábyrgð á heilbrigðisstarfsfólk og feitt fólk í nafni samvinnu er þannig í hæsta máta óeðlilegt og óviðeigandi.

 

Samtökum um líkamsvirðingu var ekki boðið að taka þátt í meintu heiðarlegu samtali um offitu öðruvísi en sem áhorfendur í sal. Í nóvember á síðasta ári var okkur þó boðið að vera með erindi á aðalfundi FFO undir sömu formerkjum; að mismunandi sjónarhorn og raddir þyrftu að leiða hesta sína saman og komast að niðurstöðu um hvernig væri best væri fyrir heilbrigðisstarfsfólk að nálgast umræðu um holdafar við sjúklinga. Við lögðum til að þar sem umræða um holdafar hefði í för með sér mikla áhættu á jaðarsetningu og smánun sjúklinga að best væri að einblína á heilsuvenjur og félagslega þætti. Þannig væri hægt að komast algjörlega hjá því að verða fyrir ásökunum um fitufordóma og það sem meira er, sjúklingar fengju árangursríkari meðferð því að fókus væri á þætti sem skipta mun meira máli fyrir heilsufar en holdafar. Sama meðferð ætti jafnframt að gilda um alla óháð holdafari því að allir hagnast á að huga vel að heilsuvenjum sínum. Okkur þykir miður að FFO hafi ekki tekið mark á hagsmunasamtökum sem starfa fyrir markhóp þeirra og að þau hafi jafnframt verið útilokuð frá umræðunni í kjölfarið. Málflutningur líkamsvirðingasinna hefur ennfremur ítrekað verið ranglega smækkaður niður í að snúast einungis um útlit en ekki heilsu af hálfu talsmanna FFO.

 

Þær mótsagnir sem koma ítrekað fram í málflutningi FFO benda til ákveðinnar krísu í þeirri grein heilbrigðiskerfisins sem snýr að holdafari og sem hingað til hefur stjórnast af hagsmunaöflum frekar en hagsmunum sjúklinga. Eftir því sem fleiri rannsóknir koma fram á sjónarsviðið sem sýna fram á hversu mikið þyngra heilsuvenjur og félagslegir þættir vega en holdafar og eftir því sem raddir þolenda um fitufordóma verða háværari verður róður þessara hagsmunaafla æ erfiðari.

 

Thomas Kuhn, höfundur The Structure of Scientific Revolutions, hélt því fram að vísindaleg þróun væri ekki stöðug né stigmagnandi. Slík þróun gerðist frekar í gegnum skyndilega viðmiðsbreytingar (paradigm shifts). Fyrst komi tímabil þar sem allir samþykki viðmið sem virðist vera að virka. Þarnæst verði viðmiðsflökt (paradigm drift) þegar vísindin framkalla mótsagnir við hið viðtekna viðmið og göt byrja að myndast í því. Síðast verður krísa í viðmiðinu þegar mótsagnirnar verða svo yfirþyrmandi að það virkar ekki lengur og hrynur. Ráðstefna FFO ýtir undir þá skynjun að við erum nær hruni viðmiðsins fyrir nálgun læknavísindanna að holdafari en okkur grunar.

 

  1. https://www.ama-assn.org/sites/default/files/media-browser/public/about-ama/councils/Council%20Reports/council-on-science-public-health/a13csaph3.pdf
  2. https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC4259211/
  3. https://romur.is/heilsa-ohad-holdafari-2/
  4. https://stjornarradid.is/media/velferdarraduneyti-media/media/rit_2013/adgerdaraaetlun-til-ad-draga-ur-tidni-offitu.pdf
  5. https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item28261/Holdafarsford%C3%B3mar_lokaskjal_des.2015.pdf

Fræðsla um líkamsvirðingu

Samtök um líkamsvirðingu hafa það að markmiði að stuðla að virðingu fyrir fjölbreytileika holdafars, jákvæðri líkamsmynd og heilsueflingu óháð holdafari. Sömuleiðis munu samtökin gera sitt til að vinna gegn útlitsdýrkun og fitufordómum í samfélaginu.Við viljum búa til samfélag þar sem allir líkamar eru velkomnir og heilsduefling snýst um vellíðan og umhyggju fyrir líkamanum. Við viljum að börn læri að þykja vænt um líkama sinn og bera virðingu fyrir margbreytileikanum. Við viljum víkka út þröngsýnar hugmyndir um fegurð. Við viljum að fataverslanir bjóði föt fyrir raunverulegt fólk í allskonar stærðum. Við viljum ekki að neinn þurfi að forðast að fara í sund vegna líkamskomplexa. Við viljum binda endi á átraskanir, stríðni vegna holdafars og stríðið gegn offitu.
 bdc952f4b7f8641d88563cda56e9a03f--body-positive-art-fat-positive
Niðurstöður margra rannsókna benda til mikilvægi þess að bæta líkamsmynd og efla líkamsvirðingu. Slæm líkamsmynd hefur fylgni við marga neikvæða þætti eins og átraskanir og óheilsusamlega hegðun. Útlitsdýrkun og fitufordómar eru áberandi í okkar samfélagi og hafa þessir þættir neikvæð áhrif á líðan og heilsu. Það er von okkar að kynning á markmiðum og verkefnum samtakanna sem og kynning á likamsvirðingu og leiðum til að vinna að bættri líðan hafi jákvæð áhrif á aðra.
Markmið samtakanna eru fjölbreytt og mörg og er fræðsla um líkamsvirðingu til nemenda og starfsmanna skóla og starfsmanna annarra stofnanna, svo sem heilsugæslu, mikilvægur þáttur í því að ná markmiðum samtakanna.
 sam1
Í vetur munu samtökin bjóða upp á fræðslu um líkamsvirðingu. Í fræðslunni verður farið yfir markmið og verkefni samtakanna. Fjallað verður um hugtakið líkamsvirðing sem og leiðir til að bæta líkamsmyndina og efla andlega og líkamlega heilsu óháð holdafari. Einnig verður farið í leiðir til að vinna gegn útlitsdýrkun og fitufordómum
Áhugsamir geta óskað eftir fræðslu  með því að senda póst á likamsvirdingarsamtok@gmail.com
Hlökkum til að heyra í ykkur!

Vegna leiðara Fréttablaðsins 3. ágúst 2017

Í leiðara Fréttablaðsins í gær skrifar Kristín Þorsteinsdóttir ritstýra 365 um offitu, fylgikvilla hennar sykursýki og æða- og hjartasjúkdóma og ábyrgð hvers og eins á eigin heilsu og þar með á kostnaði vegna heilbrigðiskerfisins. Leiðarinn bar nafnið “Eigin ábyrgð” og má lesa hér: http://www.visir.is/g/2017170809749/eigin-abyrgd-

Það er dálítið sérstakt að leiðarinn byrjar á orðum Guðmunds Jóhannssonar læknis; “Offita er ekki vandamál ein og sér heldur miklu frekar lífsstílssjúkdómarnir sem henni fylgja” en að í næstu andrá segi Kristín: “Miðað við þá staðreynd að Íslendingar eru meðal feitustu þjóða í Evrópu er viðbúið að senn komi að skuldadögum.” Síðan er aftur haft eftir Guðmundi sem segir að forvarnirnar væru brýnastar – þar spili mataræðið langstærsta rullu og svo hreyfingin. Hér er ekki talað um holdafar. Þannig að af hverju er Kristín að einblína á meint einkenni (holdafar) frekar en rót vandans? Jú, vegna þess að það er eitthvað áþreifanlegt, eitthvað sem á að renna stoðum undir það hvað Íslendingar standa illa þegar kemur að heilsuvenjum. Nema að það kemur ekki heim og saman og það á ekki að vera erfitt fyrir reynda fjölmiðlakonu að fact-checka það sem hún er að segja.

Landlæknisembættið lætur gera reglulega kannanir á mataræði Íslendinga og með hverri einustu könnun þokumst við nær lýðheilsuráðleggingum þegar kemur að mataræði.(1) Með öðrum orðum: mataræði okkar er sífellt að verða betra og hollara. Síðasta könnun var gerð 2010-2011 svo að það er reyndar löngu kominn tími á nýja könnun en þetta er það sem við höfum í höndunum um mataræði Íslendinga. Í leiðaranum talar Kristín jafnframt um þekkt sé erlendis að fátækt fólk sæki í ríkari mæli á skyndibitastaði og að afleiðingin sé sú að tekjulægsta fólkið glími frekar við offitu og fylgikvilla hennar. Hér á Íslandi virðumst við þó líta á óhollustu sem ákveðinn munað ef marka má nýjustu könnun um mataræði en þar kemur fram að þriðjungur þátttakenda taldi efnahagsbreytingar í kjölfar bankahruns hafa haft áhrif á fæðuval sitt. Algengustu breytingarnar voru minni neysla á skyndibitum, sælgæti og gosdrykkjum. Kristín bendir svo réttilega á að við erum dugleg að hreyfa okkur en reglubundin hreyfing í frístundum hefur aukist mikið meðal allra aldurshópa.(2,3)

Kristín segir Guðmund benda á að fylgikvillar offitu sé sykursýki og æða- og hjartasjúkdómar. Hér er aftur verið að mistúlka/nota tölfræðilega fylgni eins og ég hef oft talað um áður. Ekki hefur fundist orsakasamband milli holdafars og þessara sjúkdóma heldur fylgni. Fylgni segir einungis til um að tveir (eða fleiri) þættir gerast á sama tíma en ekki af hverju. Að ætla að kenna offitu um æða- og hjartasjúkdóma stenst því ekki nánari skoðun, sérstaklega þegar í ljós kemur að fjöldi Íslendinga, 25 ára og eldri, sem deyja úr kransæðasjúkdómum hefur lækkað úr 498 manns á hverja 100.000 Íslendinga, þegar dánartíðnin stóð sem hæst árin 1981–1985, niður í 371 á ári hverja 100.000 Íslendinga á árunum 2001–2005. Dánartíðni vegna kransæðasjúkdóma hefur þannig lækkað gríðarlega á sama tíma og yfirþyngd og offita hefur aukist. Nýjum tilfellum kransæðastíflu hefur enn fremur fækkað meðal karla um 57% og um 59% meðal kvenna á aldrinum 25–74 ára á árunum 1980 til 2005.(2)

Sykursýki 2 hefur aukist lítillega meðal Íslendinga og er áætlað að um 6% karla og 3% kvenna séu með kvillann. Einungis 3,3% Íslendinga á aldrinum 20–79 ára teljast nú vera með sykursýki, bæði tegund eitt og tvö samkvæmt síðustu tölum OECD frá árinu 2011. Þrátt fyrir aukningu er algengi sykursýki 2 mun lægri hér á landi en víðast annars staðar.(2) Fylgni milli aukins holdafars og sykursýki 2 er afar sterk, því verður ekki neitað. En aftur; það er fylgni ekki orsakasamband. Raunar hefur ekki tekist að staðfesta hvort kemur á undan; sykursýkin eða þyngdaraukningin. Insúlínónæmi sem er forstig sykursýki 2 hefur nefnilega í för með sér þyngdaraukningu.

Og þrátt fyrir stöðugar upphrópanir um að nú sé að koma að skuldadögum, upphrópanir sem hafa heyrst reglulega síðustu fjóra áratugina verðum við sífellt heilbrigðari og langlífari. Nú er það svo að við erum fimmta sæti yfir langlífustu þjóðir innan OECD(4) og í spá um mannfjölda 2013-2060 er gert ráð fyrir að meðalævi Íslendinga haldi áfram að lengjast á tímabilinu.(5) Við erum í 4. sæti á lista yfir heilbrigðustu þjóðirnar innan OECD sem voru spurðar út í heilsufar sitt. 77% Íslendinga segjast vera við góða eða mjög góða heilsu en aðeins 6% segjast vera við mjög slæma heilsu.(6)

Ég veit ekki með ykkur en ég er hætt að stara út í loftið að bíða eftir “skuldadögunum”, “holskeflunni”, “flóðbylgjunni” eða hvað sem fólk vill kalla þetta. Sérstaklega þegar ungmenni eru farin að líta svo á að þau séu stikkfrí svo lengi sem þau séu grönn.(7)

Einblíning á offitu til lýðheilsueflingar er þannig ekki bara gagnlaus heldur skaðleg. Ríkjandi staðalmyndir um feitt fólk eru að það sé latt, gráðugt, veiklundað og skorti sjálfsaga og frekari rannsóknir sýna að þær eiga ekki við rök að styðjast.(8,9,10) Í því samhengi hefur verið bent á að opinber umræða um offitu þar sem megináhersla er lögð á lífsvenjur og ábyrgð einstaklinga á holdafari sínu án tillits til erfðafræðilegra eða umhverfistengdra áhrifaþátta sé líkleg til að festa slíkar staðalmyndir og fordóma í sessi.(11,12,13) Og það er einmitt sú orðræða sem við sjáum í þessum leiðara.

Fitufordómar eru lýðheilsuvandamál sem þarf að tækla sem slíkt. Í raun er það svo að skekkja og fordómar gagnvart fólki á grundvelli holdafars er vel þekkt hindrun í átt að bættri lýðheilsu. Rannsóknir meðal samfélagshópa sem hafa orðið fyrir mismunun sýna auknar líkur á ýmsum heilsufarskvillum, svo sem háþrýstingi, langvinnum verkjum, kviðfitu, efnaskiptavillu, æðakölkun og brjóstakrabbameini, jafnvel þegar tekið hefur verið tillit til annarra áhrifaþátta Rannsóknir sýna ennfremur að reynsla af fitufordómum eykur líkur á þunglyndi, neikvæðu sjálfsmati, slæmri líkamsmynd, ofátsvanda og minni þátttöku í hreyfingu. Þessar niðurstöður haldast þrátt fyrir að tekið sé fyrir áhrif þátta á borð við kyn, aldur og líkamsþyngdarstuðul. (14,15)

Og það er einmitt vegna þess hversu vel þekktur áhættuþáttur fordómar eru, sem Landlæknisembættið hefur tekið mið af því við mótun lýðheilsunálgunar sinnar. Í minnisblaði vinnuhóps Landlæknisembættisins um aðgerðaráætlun til að draga úr tíðni offitu er sérstaklega tekið fram að við innleiðingu aðgerða þurfi því að leggja áherslu á að þær stuðli allt í senn að andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði og vellíðan en verði ekki til þess að auka neikvæð viðhorf eða vanlíðan í tengslum við holdafar. Þvert á móti sé mikilvægt að efla virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti í samfélaginu þar sem slæm líkamsmynd og fordómar vegna holdafars geta haft neikvæð áhrif á heilsutengda hegðun, heilbrigði og líðan. Því sé ráðlagt að aðgerðir stjórnvalda felist í eflingu heilbrigðra lifnaðarhátta á breiðum samfélagslegum grundvelli án sérstakrar áherslu á offitu eða líkamsþyngd. (16)

Þrátt fyrir að Kristín hafi eftir Guðmundi í leiðaranum að lausnin felist ekki í að “henda háum fjárhæðum í heilbrigðiskerfið” heldur að setja ábyrgðina á einstaklinga í anda nýfrjálshyggjunnar er það svo að heilsuvenjur okkar skýra einungis innan við 25% af heilsufari okkar. Restin skýrist út frá félagslegum þáttum og umhverfisþáttum. Hér er um að ræða aðgengi og gæði heilbrigðisþjónustu, almennan jöfnuð, menntun, tekjur, kyn, kynþátt og mismunun svo stiklað sé á stóru.(17) Og hvort sem við viljum viðurkenna það eða ekki ríkir ójöfnuður hér á landi þegar kemur að þessum þáttum. 82% þeirra Íslendinga sem hafa hæstu tekjurnar segjast vera við góða eða mjög góða heilsu, á meðan það sama á við um 73% þeirra sem hafa lægstu tekjurnar. Við erum í miðjuþriðjungi þjóða sem þurfa að reiða hvað mest úr eigin vasa vegna heilbrigðisþjónustu og við erum í neðsta þriðjungi þjóða þegar kemur að bæði læknisfræðilegum –og tannheilsuumönnunarþörfum sem ekki er mætt. Með öðrum orðum, sækir stór hluti þjóðarinnar ekki nauðsynlega heilbrigðis- og tannlæknaþjónustu vegna slaks fjárhags,biðtíma eða langrar fjarlægðar frá þjónustunni.(6) Með öðrum orðum er full ástæða til að henda háum fjárhæðum í heilbrigðiskerfið og hér eiga fjölmiðlar að vera þrýstiafl!

Við eigum að vita betur en að gera feitt fólk að blórabögglum fyrir öllu því sem miður fer, við vitum að ekki einungis stenst það ekki nánari skoðun heldur að það sé skaðlegt. Það er engin afsökun lengur fyrir þessari orðræðu. Nú þurfa fjölmiðlar að hætta að vinna gegn lýðheilsunálgunum og gera illt verra á meðan þeir þykjast vera að vekja fólk til vitundar. Þetta er ekkert annað en popúlismi af verstu sort. Þannig að ég spyr fjölmiðla, í ábyggilega þúsundasta skiptið: ætlið þið að axla samfélagslega ábyrgð ykkar og taka þátt í að efla heilbrigðis íslensku þjóðarinnar eða ætlið þið að halda áfram að vinna gegn því?

1. http://www.landlaeknir.is/…/rannsoknir/kannanir-a-mataraedi/
2. http://www.hjarta.is/…/…/Timarit/Handbok%20Hjartaverndar.pdf
3. http://www.landlaeknir.is/…/Sk%C3%BDrsla%20Norr%C3%A6n%20Mo…
4. http://www.keepeek.com/…/health-at-a-glance-europe-2016_978…
5. https://hagstofa.is/…/mannfjol…/spa-um-mannfjolda-2013-2060/
6. http://www.oecd.org/…/healt…/health-at-a-glance-19991312.htm
7. http://heilsanokkar.is/mikilvaegt-ad-beina-sjonum-ad-heils…/
8. Crandall, C. S. (1994). Prejudice against fat people. Ideology and self-interest. Journal of Personality and Social Psychology, 66, 882–894
9. Puhl, R. og Brownell, K.D. (2001). Bias, Discrimination, and Obesity. Obesity Research, 9, 788–805.
10. Roehling, M.V., Roehling, P.V. og Odland, M. (2008). Investigating the validity of stereotypes about overweight employees: The relationship between body weight and normal personality traits. Group and Organization Management, 33, 392-424.
11. Ata, R.N. og Thompson, J.K. (2010). Weight bias in the media: A review of recent research. Obesity Facts, 3, 41-46.
12. Boero, N. (2007). All the news that’s fat to print: the American “obesity epidemic” and the media. Qualitative Sociology, 30, 41–60.
13. Teachman, B.A., Gapinski, K.D., Brownell, K.D., Rawlins, M. og Jeyaram, S. (2003). Demonstrations of implicit antifat bias: the impact of providing causal information and evoking empathy. Health Psychology, 22, 68–78.
14. Puhl, R.M. og Heuer, C.A. (2010). Obesity stigma: Important considerations for public health. American Journal of Public Health, 100, 1019-1028
15. Sigrún Daníelsdóttir og Stefán Hrafn Jónsson (2015). Fordómar á grundvelli holdafars í íslensku samfélagi. Reykjavík: Embætti landlæknis. Sótt 3. Ágúst 2017 af http://www.landlaeknir.is/…/Holdafarsfordómar_skyrsla_des.2…
16. Embætti landlæknis. (2013). Aðgerðaáætlun til að draga úr tíðni offitu. Rafræn útgáfa á https://www.velferdarraduneyti.is/…/Adgerdaraaetlun-til-ad-…
17. https://www.cdc.gov/nchhstp/socialdeterminants/faq.html

 

Höfundur: Tara Margrét Vilhjálmsdóttir félagsráðgjafi og formaður Samtaka um líkamsvirðingu

„Meinlausu“ grínin og „ósýnilegu“ skilaboðin

Margir eru ósáttir við líkamsvöxt sinn og hræðast það að fitna. Tíðni slæmrar líkamsmyndar er alltof há og hafa fjölmiðlar mikil áhrif á þá þróun. Skilaboðin sem við fáum frá fjölmiðlum eins og tímaritum, sjónvarpi, kvikmyndum og fréttum geta verið skýr líkt og fréttir um „offitufaraldurinn“ á Íslandi sem eiga að vekja á óhug og ótta hjá okkur.

Stundum eru skilaboðin, um hvaða vaxtarlag þykir ákjósanlegast og best og hvað ekki, þó ekki eins skýr eða sýnileg.  Þá getur verið erfitt að átta sig á þeim og áhrifum þeirra. Skilaboðin beinast t.d. oft að börnum í teiknimyndum og sögum. Skilaboðin birtast í neikvæðu og frekjulegu ímyndinni af feita barninu, feita kettinum sem er latur og gráðugur, óvinsælu feitu stelpunni í skólanum og fyndnu, feitu, óheppnu og vandræðalegu vinkonunni sem kemur sætu vinkonunni á séns. Skilaboðin birtast sjónvarpsþáttum líkt og Friends þar sem Monika er klár, orkumikil, skemmtileg og dugleg en breytist í heimska, leiðinlega og gráðuga frekju þegar hún fitnar.

fita1

Við hlæjum að feita gráðuga kettinum, okkur finnst feiti frekjulegi krakkinn pirrandi og við kippum okkur lítið upp við þá neikvæðu mynd sem við fáum af feitu manneskjunni í kvikmyndum og þáttum.

Þetta er náttúrulega bara allt meinlaust grín er það ekki?

Má ekki gera grín að neinu lengur?

 

fita 3

 

Ég er eflaust alls ekki besta manneskjan til að fjalla um grín. Ég er ansi taktlaus þegar kemur að djóki og hef hlegið að ljótum bröndurum.

Einn brandari hefur kannski ekki mikil áhrif, en ímyndum okkur að í nær öllum grínþáttum, teiknimyndum og sögum væri gert grín að bláeygðu fólki. Eitthvað sem fyrir fjölmiðlana var algjörlega hlutlaust verður að einhverju hræðilega neikvæðu. Hvaða áhrif haldiði að það hafi á fólk með blá augu? Skilaboðin gætu líka verið óljósari t.d. að bláeygði krakkinn í teiknimyndinni ætti aldrei neina vini eða bláeygða stelpan í kvikmyndinni myndi aldrei vera vinsæl eða fá draumastarfið.

Ómeðvitað (ef við viljum vera svolítið Freudísk) þá sígur þetta inn og hefur áhrif. Við erum t.d. líklegri til að kaupa Pepsí í hléi í bíó ef Pepsí birtist á skjánum,  þótt við teljum okkur alls ekki hafa séð Pepsí og munum ekkert eftir því í myndinni. Þetta sísast allt saman inn – við tökum bara ekkert alltaf eftir því.

Þannig að veðurfréttabörnin sem voru minnkuð í veðurfréttunum á sínum tíma, Klói köttur á kókómjólkinni sem fór í megrun og „köttaði“ sig niður, lati feiti og fyndni kötturinn Grettir og fyndna feita konan í bíómyndinni sem er alltaf í aukahlutverki og fær aldrei draumaprinsinn eða draumastarfið skipta máli. Þessi „ósýnilegu“ skilaboð  og „meinlausu“ brandarar hafa neikvæð áhrif á okkur, þótt við áttum okkur ekki á því.

Höfundur: Elva Björk Ágústsdóttir

Má ég vera á „ljótunni“?

Í morgun vaknaði ég á ljótunni……. kannist þið við þá tilfinningu?

joe-bleh2

Í gær var ég þvílíkt sexý, klæddi mig í fallegan kjól, greiddi hárið og valhoppaði um bæinn í opnum sandölum. Ég var fallegri en túristarnir á Laugaveginum og mér fannst líkami minn mun kynþokkafyllri en líkami gínanna í búðargluggunum.

Ég fór sexý að sofa.

Í morgun vaknaði ég ljót. Ég klæddi mig í svörtu rassasíðu heimabuxurnar með hnéförunum og rauða og víða hettupeysu. Ég burstaði tennurnar og greiddi hárið (vildi auðvitað ekki gera öðrum einhvern óleik með andfýlu og hárlykt út um allt). Í dag eru allir sætari en ég og í dag eru allir sexý nema ég. Ég hlakka til að koma heim eftir vinnu og hlamma mér í sófann og „Netflixa“ fram á kvöld.

Ég skammast mín pínu fyrir að líða svona. Ég meina… ég er líkamsvirðingarsinni og varaformaður Samtaka um líkamsvirðingu. Ég held úti fræðslu um sjálfsmynd og mikilvægi þess að þykja vænt um eigin líkama. Má ég vera svona ósátt? Verð ég ekki að vera fyrirmynd og þykja vænt um líkama minn og elska hann alla daga?

ÉG vera á ljótunni?

Eitt af verkefnum líkamsvirðingarbaráttunnar er að benda á mikilvægi þess að efla jákvæða líkamsmynd fólks og sátt þeirra við eigin líkamsvöxt. Fólk er hvatt til að hugsa jákvætt um líkamsvöxt sinn og byrja að elska hann eins og hann er. Allt er þetta gott og blessað enda þekkt að sátt við eigin líkamsvöxt eykur bæði andlega og líkamlega heilsu.

En.. að elska líkama sinn getur verið ansi „trikkí“. Við búum í samfélagi sem gefur okkur skýr skilaboð um hvað telst vera aðlaðandi og „réttur“ líkami og hvað ekki. Við fáum óteljandi skilaboð um mikilvægi þess að vera grannur og „fit“ og hræðsluáróðurinn í tengslum við fitu er gríðarlega mikill. Við lærum af þessum skilaboðum og förum að trúa þeim. Við förum að trúa því að líkami okkar þurfi að líta út á ákveðinn hátt til að teljast ásættanlegur og við betri manneskjur.

Það getur því verið ansi mikil vinna að ná sátt við eigin líkamsvöxt þegar skilaboðin sem við fáum kenna okkur annað . Að „aflæra“ að líkaminn sé óásættanlegur getur tekið tíma og mikla vinnu. Það er því mikilvægt að átta sig á að það er bara allt í lagi að elska ekki alltaf líkama sinn eða þykja hann ekkert alltaf svakalega sexý og aðlaðandi. Við erum meðvituð um að neikvæðar tilfinningar eins og sorg og depurð geta verið eðlilegar og því er gott að hafa í huga að neikvæðar tilfinningar gagnvart líkamanum geta einnig verið eðlilegar.

Að brjóta sig niður fyrir það að vera ekki sáttur við eigin líkamsvöxt getur bara valdið enn meiri vanlíðan.

Enginn er fullkominn, enginn (eða næstum því) elskar sjálfan sig 100% alla daga. Við höfum tilfinningar sem sveiflast og því ekkert að því að tilfinningarnar gagnvart líkamanum sveiflist með.

Höfundur: Elva Björk Ágústsdóttir, sálfræðikennari og varaformaður Samtaka um líkamsvirðingu

Töfratalan

EBq-TUMBZgSl_992x620_8Vc9Z15q.jpg

Ég hef átt mér töfratölu síðan ég var tíu ára gömul. Þá er ég ekki að tala um happatölu eða lottótölu heldur töfratölu varðandi þyngd og kíló. Ég var bráðþroska og hærri og þyngri en margar jafnöldrur mínar en ég var undir 45 kílóum og það var mjög mikilvægt man ég úr umræðum skólasystra minna.

Töfratalan hækkaði vissulega með aldri og þroska og hefur verið aðeins breytileg milli ára en hún hefur alltaf verið að minnsta kosti fimm kílóum undir minni raunverulegu þyngd. Ég komst næst henni þegar ég var 18 ára eftir viku á súpukúrnum svokallaða þar sem ég borðaði tæra grænmetissúpu í öll mál. Ég man eftir að hafa staðið á vigtinni í líkamsræktarstöðinni og verið ofsaglöð í nokkrar sekúndur yfir hvað ég var komin nálægt töfratölunni. Þá snarféll gengið um fimm kíló þar sem ég hugsaði með mér að kannski væri töfratalan aðeins lægri en þetta. Ég fann jú ekki fyrir svo miklum breytingum á lífi mínu.

Töfratalan hefur yfirleitt verið sveipuð dýrðarljóma. Þvílík ævintýri sem biðu mín þegar ég næði töfratölunni! Ég yrði margfalt fallegri, sjálfsöruggari og hamingjusamari. Passaði í öll föt í öllum búðum, gæti farið í magaboli og þrönga kjóla og bikini og stutt pils. Yrði elskuð og dáð af karlmönnum og myndi stunda kynlíf með ljósin kveikt og á hvolfi. Stæði brosandi framan í spegilinn í fremstu röð í líkamsræktarsalnum og yrði ávallt fyrst á dansgólfið.

Merkilegt nokk virtist það alveg fara framhjá mér að vinkonur mínar sem voru grannar voru ekkert síður í vandræðum með að eignast kærasta eða fullkomnar gallabuxur. Þær voru ekkert sjálfsöruggari, hamingjusamari eða ánægðari með líkama sinn en ég. En ég öfundaði þær óendanlega af grönnum vexti og litlum kílóafjölda.

Ég hafði tröllatrú á því að ég myndi ná töfratölunni. Einhvern daginn. Jafnvel þótt ég fjarlægðist hana alltaf meir og meir. Beið með að kaupa mér dýr föt því þau myndu jú fara mikið betur í minna númeri, þegar ég væri komin í töfratöluna. Beið með að fara í jóga af ótta við að geta ekki gert allar æfingarnar, það myndi ég jú geta þegar ég væri komin í töfratöluna. Beið með að fara á blint stefnumót sem mér var boðið á, það yrði svo miklu betra og vænlegra til vinnings með töfratölunni.

Ég hef í gegnum árin lagt mikið á mig til að ná töfratölunni en það hefur verið svolítið eins og að labba í mjög sterkum mótvindi. Nokkur skref í rétta átt og svo fýk ég og þeytist út í buskann, lengra og lengra og lengra í burtu frá henni. Því á eftir hverjum megrunarkúr (og þeir eru margir) hef ég nefnilega yfirleitt þyngst um sirka tvisvar sinnum kílóin sem ég tapaði og það á skömmum tíma. Stundum hef ég orðið mjög upptekin af töfratölunni og hún stjórnað lífi mínu með harðri hendi. Vigtað mig jafnvel oft á dag. Ef vigtin fór upp þá leið mér illa. Ef hún fór niður þá leið mér vel. Alveg óháð því hversu heilbrigðu lífi ég lifði.

Það var eiginlega alveg ótrúlega seint sem ég áttaði mig á að mögulega a) gæti ég orðið ákaflega hamingjusöm án töfratölunnar og b) að jafnvel með töfratölunni yrði ég ef til vill ekkert sérstaklega hamingjusöm.

Í dag veit ég ekkert hvað ég er þung. Það var með betri ákvörðunum sem ég hef tekið að setja ekki ný batterí í fínu vigtina mína þegar þau kláruðust. Ég veit að ég er tugum kílóa frá töfratölunni. En það merkilega er að – mér líður ágætlega með sjálfa mig. Miklu betur heldur en nokkurn tímann í eltingarleiknum við töfratöluna. Ég er ennþá að eltast við að fá nægan svefn, borða hollan mat og að hreyfa mig meira, enda á líkami minn skilið virðingu og umhyggju. En töfratalan – hún er ekki til

Höfundur: Sólrún Ósk Lárusdóttir, sálfræðingur

Pistillinn birtist fyrst í Stundinni: http://stundin.is/pistill/tofratalan/